Félag hljómplötuframleiðenda (skammstafað FHF) eru hagsmunasamtök fyrirtækja í hljómplötuútgáfu á Íslandi.
Tilgangur samtakanna er að beita sér í hagsmunamálum aðildarfyrirtækjanna, standa vörð um réttindi þeirra og bæta skilyrði þeirra bæði hvað markaðsskilyrði og aukin réttindi varðar.
FHF er einnig aðili að alþjóðasamtökum hljómplötuframleiðenda, IFPI með rúmlega 1400 aðildarfyrirtæki í 70 löndum.
FHF tekur árlega saman upplýsingar um sölu tónlistar hér á landi og stendur að vikulegri gerð Tónlistinn – Plötur og Tónlistinn – Lög sem eru opinberir vinsældalistar um sölu hljómplatna í verslunum og streymi á tónlistarveitum, og mest spiluðu lögin í útvarpi ásamt mest streymdu lögunum á tónlistarveitum.
FHF er jafnframt deild innan Sambands flytjenda- og hljómplötuframleiðenda og kemur að úthlutun til einstakra innlendra og erlendra framleiðenda hvað varðar opinberan flutning útgefinna hljóðrita í útvarpi og öðrum opinberum stöðum svo sem verslunum, veitingahúsum o.fl.
Ennfremur tekur FHF þátt í ýmsum sameiginlegum verkefnum með öðrum rétthöfum hugverka.
Félagsmenn í FHF sem eru af öllum stærðum og gerðum gefa út mjög fjölbreytt úrval af tónlist.
Spurt og svarað.
Hvers vegna ætti ég að gerast meðlimur í FHF?
Aðild að FHF auðveldar greiðslur til þín sem rétthafa vegna opinbers tónlistarflutnings í útvarpi og víðar.
Hef ég rétt á að sækja um aðild?
Aðilar að félaginu geta orðið allir hljóðrita- eða hljómplötuframleiðendur, fyrirtæki eða einstaklingar, sem stunda útgáfustarfsemi og/eða eru handhafar útgáfu- og/eða flutningsréttinda.
Aðild getur verið annað hvort full aðild eða aukaaðild. Umsóknir um aðild berist stjórn félagsins og skal í umsókn tilgreina starfsemi umsækjanda og umfang hennar.
Stjórn félagsins fjallar um umsóknir um aðild og samþykkir eða hafnar eftir atvikum. Ástæða höfnunar getur einungis verið sú að umsækjandi uppfylli ekki ofangreind skilyrði eða að hann hafi með óumdeildum hætti unnið gegn hagsmunum félagsins og félagsmanna almennt. Ákvörðun stjórnar um höfnun má skjóta til aðalfundar, sé það gert skriflega innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningarinnar.
Hvernig gerist ég meðlimur í FHF?
Sendu tölvupóst til framkvæmdastjóra: eidur@fhf.is